Hvernig virka "threadless" lokkar?

Höfundur: Diljá

Eins og þið kannski vitið þá bjóðum við upp á lokka sem eru innþræddir (internally threaded) og lokka sem eru með pinnafestingu (threadless). Við kölluðum þá einu sinni þráðlausa lokka en það meikaði ekki alveg sens því farsímar eru þráðlausir en .. ekki eyrnalokkar 😅.

Við erum ekki með útþrædda lokka sem eru með skrúfgangnum á lokknum - við hvorki notum þá okkur sjálfar eða viðskiptavini okkar né seljum þá. Innþræddir eða pinnafestir lokkar hafa hinsvegar hvor um sig sýna eiginleika.

Það vefst fyrir mörgum hvernig pinnafestir lokkar virka eiginlega, svo hér ætla ég að útskýra málið!

Ólíkt innþræddum lokkum, þar sem kúlan/steinninn/toppurinn er með skrúfgangi sem skrúfast inn í lokkinn, þá eru toppar fyrir pinnafesta lokka með litlum pinna sem skorðast af inni í lokknum. Til að festa þá setur maður pinnann um það bil hálfa leið inn í pinnann, og beygir pinnann örlítið. Svo þrýstir maður pinnanum alveg inn, það á að vera smá fyrirstaða og oft heyrir maður hálfgert brakhljóð þegar hann fer alla leið inn í lokkinn. Mikilvægt er að beygla pinnann ekki of mikið þar sem hann gæti brotnað. Einnig er gott að toga létt í toppinn til að vera viss um að hann sé nægilega vel festur.

Kostir:

  • Auðvelt að losa þá með því að toga þá í sundur.

  • Auðvelt að festa þá (ég er að horfa á ykkur, fólk með gervineglur💅)

  • Það þarf ekki að herða þá reglulega eins og þrædda lokka (þó að það saki ekki að athuga af og til hvort þeir séu ekki alveg fastir ennþá)

  • Ef þú ert með gróið gat sem situr skakkt, þá er stundum hægt að manipúlera pinnafestum lokkum þannig þeir sitji beinir á húðinni.

Gallar:

  • ALLS EKKI hentugir fyrir tungugöt, smiley, tunguhaft. Þú vilt ekki vera með örmjóan pinna upp í þér, svo óvart kyngirðu honum og ert með beittan pinna innvortis!

  • Hentar líklega ekki (öllum) nöflum. Við höfum ekki boðið upp á pinnafesta naflalokka svo ég þekki það ekki af eigin reynslu, en ég hef heyrt frá öðrum göturum að vegna hreyfingar á svæðinu geti húðin þrýst á toppinn svo hann losni, eða að hann kippist af ef föt flækjast í.

  • Pinninn getur brotnað ef maður er harðhentur. Því er mikilvægt að fara varlega, eða jafnvel fá gatara til að aðstoða þig.

  • Ef pinni er úr gulli getur hann verið viðkvæmur. Pinnafestir gulltoppar eru því yfirleitt með pinna úr títaníum af þeim ástæðum.

Plastlokkar - nei takk!

Höfundur: Diljá 

Eitt af því sem er svo skemmtilegt við göt er að það er hægt að skreyta þau á óteljandi vegu og leyfa sínum stíl og persónuleika að skína í gegn. Hvort sem þú elskar glitrið í ópalum, átt þér uppáhalds lit, þykir vænt um mánaðasteininn þinn, elskar subtle lúxusinn við að vera með ekta gullhring í eyranu, nú eða áberandi lúxusinn í að vera með gull og gimsteina í öllum götum - möguleikarnir eru endalausir! Lokkar og tunnel fást úr allskonar efnum; títaníum, gulli, stáli, steini, viði, gleri, sílíkoni o.fl. o.fl... og jú, plasti.

Plastlokkar eru ekki jafnalgengir í skartgripaflórunni og þeir voru áður, en margir kannast við tunnel og tungulokka úr plasti, fyrir utan það náttúrulega að sumir gatarar notuðu eða nota enn plastlokka í munngöt. Það var eitt sinn talið að plastlokkar væru ákjósanlegir í munngöt þar sem plast er mýkra en málmur og voru því taldar minni líkur á tann- og gómaskemmdum. Í dag vitum við að plastlokkar geta líka valdið tann-og gómaskemmdum (rétt staðsetning, passlegur lokkur og það að tyggja ekki á lokknum sínum til gamans eru lykillinn að farsælu munngati) plast rispast auðveldlega og rispurnar geta ert og safnað í sig bakteríum og að plastlokkar geta mögulega leyst frá sér skaðleg efni. 

En þrátt fyrir þetta alls saman er enginn skortur af söluaðilum af plastlokkum. 

Hvernig plast er í lokkum? 


Þegar maður sér plastlokka á netinu eru þeir oft  flokkaðir sem “akrýll”. Smá side note: akrýll er ekki eitthvað eitt, heldur er allskyns mismunandi plast sem flokkast sem akrýll. PMMA (poly methyl methacrylic) er algengasta plastið sem notað er í skartgripi og fleira undir heitinu “akrýl”. PMMA er notað í gervineglur, naglalökk, málningu og FULLT af öðrum hlutum. Hreint PMMA er t.d. notað í ígræðslur og beinalím, það er því öruggt mannslíkamanum (e. bio compatible) og ígræðsluhæft (e. implant grade), sem er vissulega það sem við gatarar leitumst eftir.

En málið er ekki svo einfalt, því miður. Hreint PMMA er prufað í ystu æsar. Það er allt mælt í þaula,  það er prófað á dýrum (og ég er ekki að tala með dýraprófunum), það þarf í flestum tilfellum að vera gæðamerkt og rekjanlegt svo hægt sé að tryggja að meðhöndlun sé rétt. Það gefur augaleið að hreint PMMA er dýrt efni og því eru flestir - ef ekki allir - framleiðendur akrýl lokka að vinna með einhvers konar PMMA-blöndur sem gerir vöruna ódýrari í framleiðslu og sölu. Í mörgum löndum er takmarkað regluverk um þessi íblöndunarefni, og hafa til dæmis litarefni, annars konar akrýl og plastefni og fleira verið notuð í slíkt. Oft eru þetta krabbameinsvaldandi efni.

Tungulokkar úr plasti. Eitt sinn var talið að plastlokkar væru ákjósanlegir í munngöt þar sem plast er mýkra en málmur og voru því taldar minni líkur á tann- og gómaskemmdum. Í dag vitum við að rétt staðsetning, passlegur lokkur og það að tyggja ekki á lokknum sínum til gamans eru lykillinn að farsælu munngati.

Get ég keypt lokka úr hreinu PMMA?

Nei, það væru allavega fréttir fyrir mig! Hreint PMMA er allt of dýrt og óaðgengilegt, það borgar sig ekki fyrir framleiðendur. Því eru akríl lokkar (og akríl er sem áður segir, blandað með PMMA) ekki að fara að vera ígræðsluhæfir (e. implant grade) og þeir eru ekki að fara að búa yfir þessum frábæru eiginleikum sem hreint PMMA býr yfir.

En hvað með bioplast? 

Framleiðendur af bioplast/bioflex lokkum halda því fram að efnið sé öruggt mannlíkamanum og ígræðsluhæft en þeir hafa aldrei viljað gefa út nákvæmar upplýsingar um innihald plastsins. Það eru engar sannanir eða rannsóknir sem sýnt hafa að þessir lokkar séu öruggir, þeir eru ekki heldur með merkingar frá FDA (Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna) eða CDC (Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna). Það er líka takmarkað regluverk á auglýsingum á líkamsskarti og því komast fyrirtæki upp með fullyrðingar um öryggi sem er ekki endilega til staðar. Og það er ekki þess virði á að taka sénsinn á lokkum sem gætu mögulega innihaldið krabbameinsvaldandi efni. 

Hvað um retainera? 

Ef þú ert að fara í MRI-skanna, aðgerð eða annað þarf sem þess er krafist að allir lokkar séu fjarlægðir, þá mæli ég frekar með retainerum úr gleri ef þú ert hrædd/tt/ur um að götin þrengist eða lokist.

Að lokum 

Líkamskreytingar eru svo flott og fjölbreytt tjáningarform. Við eigum öll rétt á að vera með vandað skart í götunum okkar, enda leggjum við peninga, tíma og þolinmæði í að láta þau gróa. Það er leiðinlegt að við sem elskum göt getum ekki treyst því að allt líkamsskart sé öruggt og því er um að gera að kynna sér málin vel um hvaða efni við setjum í okkur, hvort sem gatið er nýtt eða gróið.



Er læknastál öruggur málmur?

Höfundur: Diljá

Ég tala oft um velferð viðskiptavina einfaldlega af því að hún skiptir mig ótrúlega miklu máli. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að gera götunarferlið öruggt og þægilegt fyrir viðskiptavini og leggjum áherslu á vandaða lokka og nálar. Einn liður í því er að við notum ígræðsluhæfa títaníumlokka (e. implant grade titanium). Þeir eru með vandað yfirborð, eru sterkari en stál, léttari en stál og auk þess nikkelfríir - sem stállokkar eru ekki. Margir halda að læknastál sé gæðamálmur, vandaðasti og öruggasti málmur sem þú getir fundið fyrir húðgöt, enda er það oft auglýst svoleiðis. En það er það hins vegar ekki rétt og ég hvet fólk að spyrja gatara úr hverju lokkarnir þeirra eru. 

ATH. “Læknastál” er ryðfrítt stál, oftast nær 316L. Þessvegna tala ég svolítið um 316L og læknastál sem sama hlutinn þó svo að í einstaka tilfellum sé öðrum gerðum af stáli lýst sem læknastáli. Ryðfrítt stál er til margra hluta nytsamlegt, það er t.d. mjög sterkt og það ryðgar ekki. En hér útlista ég hvers vegna 316L stál/læknastál á ekki heima í nýjum eða gróandi götum.

Nokkrir punktar um “læknastál” og 316L stál:

Stállokkur. Mynd af Google.

  • Það vantar alveg skýra skilgreiningu á hvað læknastál eiginlega er, það er til dæmis ekki samheiti yfir 316 stál eða ryðfrítt stál.

    • Læknastál er (skrítin) þýðing á “surgical steel” sem beinþýðist sem skurðlækningastál, sem er loðið hugtak til að byrja með. Surgical steel er í raun og veru bara orð sem oft er notað um ryðfrítt stál (aðallega 316L stál) sem notað er í læknisfræðilegum tilgangi, sem og til að virka traustvekjandi.

  • Þó svo að 316L stál sé ryðfrítt þá er 316L ekki ígræðsluhæft og á því ekki langtíma erindi inn í líkama fólks ( þar með ný og gróandi göt). 

    • Það er mjög mikilvægt að húðgöt séu gerð með ígræðsluhæfum (e. implant grade) lokkum.

    • Ígræðsluhæfni málms er metin út frá því hversu vel pússað yfirborðið er, auk þess hvort málmurinn sjálfur henti mannslíkamanum.

  • 316L lokkar eru mun minna glansandi en hágæðalokkar. Þetta er vegna þess að yfirborðið á 316L lokkum er ekki nægilega vel pússað og það eru örsmáar rispur á yfirborðinu sem geta safnað í sig bakteríum og ert gatið innan frá. Þetta getur ert jafnvel gróin göt.

  • 316L stál inniheldur 10-13% nikkel.

    • 316L stál stenst nikkel mælikvarða Evrópusambandsins (e. EU directives on Nickel ion migration), en getur þó hugsanlega haft áhrif á þá sem eru mjög næmir fyrir nikkeli.  

  • Það er ekki í lagi að nota í 316L lokka í ný göt. 

    • Það er enginn trúverðulegur gatari að gata með 316L lokkum af ástæðunum gefnum hér að ofan. 

      • 316L stállokkar eru mun ódýrari en títaníum, og því eru alveg örugglega margir gatarar * almennt * (er ekki endilega að tala um Ísland) sem spara fullt af peningum með því að kaupa ódýrari - og lélegri - lokka á kostnað viðskiptavinarins, því það er viðskiptavinurinn sem þarf síðan að díla við erfiðari gróanda og jafnvel ofnæmisviðbrögð.

    • Ef gatari ætlar að nota stállokka þá ættu þeir að vera stál af gerðinni ASTM F138/F139 316-LVM eða ISO 32-1, þar sem það stál er ígræðsluhæft. 

Heimildir:

https://safepiercing.org/jewelry-for-initial-piercings/

https://catlogix.com/pages/is-stainless-steel-hypoallergenic

Eru snake eyes góð hugmynd?

Höfundur: Diljá

Við fáum reglulega fyrirspurnir um hvort við gerum “snake eyes”.

Snake eyes er gat sem fer þversum í gegnum tungubroddinn (e. horizontal). Þau virðast mjög krúttleg, tvær litlar kúlur framan á tungunni - kjút! Margir gatarar með langan starfsferil að baki hafa boðið upp á þessi göt á einhverjum tímapunkti, en reynslan og þekkingin sem skapast hefur í götunarheiminum í gegnum tíðina þýðir að enginn gatari ætti að bjóða upp á snake eyes í dag. 

Ástæðurnar:

Snake eyes. Mynd frá: beadnova.com

  • Tungan samanstendur af tveimur vöðvum. Gatið fer í gegnum vöðvana tvo og tengir þá saman, og heftir þar með náttúrulegar hreyfingar tungunnar. Þetta getur valdið erfiðleikum við að tala, tyggja og kyngja.

  • Tungubroddurinn liggur upp við tennurnar, og þar sem gatið fer í gegnum tungubroddinn eru kúlurnar alltaf að nuddast upp við tennurnar og/eða góminn. Þetta getur valdið óafturkræfum tann, góma- og glerjungsskemmdum, auk þess að lokkurinn getur flækst í tönnunum og rifnað.

  • Það eru miklar líkur á að líkaminn hafni þessu gati og samhliða því líkur á öramyndun og jafnvel taugaskemmdum. 

Gómaskemmd eftir snake eyes.
Mynd: amatopiercing.com

En gildir þá það sama ekki um öll önnur munngöt?

  • Nei, alls ekki. Það þarf vissulega að passa að lokkur í munngati sé passlegur, þ.e. að styttri lokkur sé settur í gatið eftir að bólgan er farin að hjaðna, sem og vera með passlegan lokk þegar gatið er gróið. Það þarf að passa að vera ekki að fikta í munngötum með tönnunum, því það getur valdið tannskemmdum. En þessi klassísku munngöt bera ekki með sér sömu áhættur og snake eyes.

























Ýmislegt um keloid!

Höfundur: Diljá

Við höfum öll heyrt talað um keloid og margir halda að keloid sé samheiti yfir svokölluð “piercing bump”, sem sagt upphleyptan vef sem myndast oft þegar til dæmis göt verða fyrir einhvers konar hnjaski. En það er hins vegar ekki rétt!

Hvað er keloid?

Keloid er kallað örbirgsli á íslensku. Þetta er upphleyptur, óreglulegur örvefur (oft gúmmíkenndur og stinnur) sem myndast eftir meiðsli eða göt. Það er hægt að fá keloid ör eftir t.d. brunasár, en það lítur vissulega öðruvísi út heldur en keloid öramyndun á gati í eyra þar sem göt eru pínulitlar holur en skurðir, brunasár o.s.frv. eru það ekki. Keloid verða til þegar “meidda” húðin offramleiðir kollagen þegar hún er að endurnýja sig. Þetta gerist vegna vanstarfsemi (dysfunction) í gróandaferli líkamans.

Hvað er ofholdgun?

Ofholdgun er íslenska yfir hypertropic scar. Þau eru önnur týpa af upphleyptum örum sem gerist einnig út af of miklu kollageni, en munurinn er að þau ör halda sér á svæðinu sem meiddist, á meðan keloid fara út fyrir meidda svæðið. Ég mun örugglega skrifa meira um þessi ör seinna þar sem internetið er fullt af röngum upplýsingum um hypertrophic ör eftir göt.

Sem sagt!

Keloid ör á gati: getur farið langt út fyrir gataða svæðið.

Hypertrophic ör á gati: upphleypt, einskorðast við svæðið sem var gatað.

Eru keloid hættuleg?

Í stuttu máli - Nei.
Keloid geta verið óþægileg þegar þau eru að vaxa, þeim getur fylgt kláði, þau geta haft áhrif á hreyfingu húðarinnar, þau geta stækkað yfir langt tímabil (á mánuðum og jafnvel árum) og það er mun erfiðara að meðhöndla þau heldur en ofholdgunarör. Fólki finnst almennt ekki ákjósanlegt að vera með keloid af þessum óstæðum, en keloid eru ekki hættuleg eða smitandi.

Tvö keloid. Mynd: Healthline.

Get ég losnað við keloid?

Ef þú ert með keloid sem þú vilt losna við, þá þarftu að tala við húðlækni. Það er ekki endilega sniðugt að skera keloid af, því þau koma þá yfirleitt aftur, en læknar eru með ráð á reiðum höndum og  mér skilst að þeir geti m.a. sprautað örið með sterum eða jafnvel fryst minni keloid.

Afhverju fá sumir keloid en ekki aðrir?

Keloid er sem áður segir “dysfunction” í gróandaferli líkamans. Þau eru talin arfeng þar sem fólk er samkvæmt rannsóknum mun líklegra til að fá keloid ef einhver í fjölskyldunni er með keloid ör. Samkvæmt Vísindavefnum er örbirgslamyndun 15% líklegri á fólki með dökka húð.

Má maður fá sér göt ef maður er með keloid ör?

Það er ekki algjört samasem merki á að fá keloid í hvert einasta sár eða gat þó maður sé með keloid ör (eða einhver í fjölskyldunni). Ég hef sjálf bæði hitt fólk og séð myndir af fólki með mörg göt, sem fengið hefur keloid í sum þeirra en alls ekki öll. Ég er ekki að mæla með því að fólk taki sénsinn á að fá sér göt ef það er með keloid ör einhvers staðar á líkamanum, en það er vissulega val einstaklingsins og mæli ég þá með að tala við lækni áður, kynna sér meðhöndlunarferlið á keloids og mögulegan kostnað ef það þyrfti síðan að fjarlægja keloid.

Heimildir

American Academy of Dermology

Vísindavefurinn

Genetics of Keloid Scarring

Healtline

Ýmislegt um tunnel!

Höfundur: Glódís

Reyndir gatarar hafa í fjöldamörg ár fylgst með og skoðað margar aðferðir og breytur við stækkun gata, svo sem efni lokka og aðferð stækkunar. Að stækka gat getur verið varanleg breyting og það er alltaf best að ganga út frá því að það verði raunin. Það er samt hægt að láta sauma saman tunnel ef mann langar ekki lengur að vera með þau, en það er kostnaðarsamt. 

Þessi tunnel eru frá Gorilla Glass og Glasswear Studios

Stækkunin sjálf

Öruggasta aðferðin er að byrja á að fara til gatara til að fá stækkun og stækka svo sjálfur með því að hafa fyrstu lokkana í þar til þeir eru rúmir og þú getur auðveldlega sett næstu stærð eða hálfu stærð í gatið án mikilla óþæginda. Það ætti að taka um 6-8 vikur í flestum tilfellum.

Forðast skal að stækka um meira 1-2 mm í einu til að halda eyrnasneplunum heilum og í góðu standi. Að þrýsta nýjum og stærri lokk í er ekki talið góð aðferð, og það á einnig við um að nota stærri sílíkon lokka til að stækka!

Úr hvaða efnum mega lokkarnir vera? 

Í nýstækkuðum götum er ekki mælt með að hafa lokka úr akrýl, sílíkoni eða náttúrulegum efnum svo sem horni, við eða beinum. Eftir að eyrun hafa jafnað sig er að sjálfsögðu hægt að nota lokka úr þessum efnum og fleirum til!

Best er að nota annað hvort innþrædd eða ‘’single flair’’ títaníum tunnel, eða gler plug. Ekki er mælt með útþræddum lokkum eða lokkum með beitta kanta í ný göt því þá eiga eyrun í meiri hættu á að rifna/rispast við stækkun. Það er ekki heldur mælt með að nota lóð eða aðra mjög þunga lokka til þess að stækka, þeir valda því að gatið stækkar ójafnt og vegna þrýstingsins sem myndast neðst í sneplinum getur hann þynnst.

Einnig er vert að taka fram að taperar sem notaðir eru til að stækka eru ekki ætlaðir sem lokkar og ætlast er til að þeir séu fjarlægðir úr eyrum og lokkar settir í staðinn. Að ganga með taper sem skart í nýstækkuðu gati getur auðveldlega skapað ertingu og óþarfa tog.

Umhirða

Best er að halda eyrunum hreinum og þurrum og má til dæmis nota saltvatnslausn til að þrífa og hárblásara á kaldri stillingu til að þurrka á eftir. Ekki allir gatarar telja þó að þessi göt þurfi sérstaka umhirðu þar sem ekki er um að ræða ný göt, best er að hlusta á ráðleggingar frá gatara sem þú treystir.

Þegar eyrað hefur jafnað sig alveg er gott að taka lokkana úr í sturtuferðum og þrífa þá lokkana og eyrun. Þá er einnig gott að nudda eyrnasneplana reglulega með t.d. jojoba olíu til að gefa húðinni raka og auka blóðflæðið til eyrnasnepilsins.

Algengustu vandamál

Að stækka gat of hratt getur valdið ofmyndun örvefs og þegar mikill örvefur er í gati verður teygjanleiki húðarinnar minni, blóðflæðið minna og líkurnar á að gatið minnki aftur síðar verða mun minni.

Sársauki, roði, glær vökvi og bólga geta bent til þess að gatið hafi verið stækkað of hratt (þá myndast ‘’blow out’’) eða að lokkurinn sé að valda ofnæmisviðbrögðum og/eða ertingu vegna efnis eða áferðar. Þá er mikilvægt að komast að því hvað af þessu er að valda óþægindunum og bregðast við því sem fyrst.

Oftast er best að minnka götin um 1-2 stærðir, setja lokk úr titanium eða gleri og hugsa um götin eins og ný göt. Í sumum tilfellum er best að fjarlægja lokkana alveg og leyfa eyrnasneplunum að jafna sig. Götin munu skreppa saman, en þegar eyrun hafa jafnað sig er öruggt að byrja að stækka aftur, en fara rólega í sakirnar! 

Lokkar í nýjum götum

 Höfundur: Glódís

Hvað er gatarinn þinn að setja í nýja gatið þitt? Hér eru nokkrir mikilvægir punktar um lokka í nýjum götum.

  1. Lokkar í nýjum götum verða að vera í viðeigandi lengd, þykkt og lögun fyrir anatómíu hvers og eins og staðsetningu á líkamanum.

  • Lokkar sem er of stuttir hleypa hvorki lofti né blóðflæði að gatinu og hindrar að eðlilegur ‘’gróunarvökvi’’ geti seytlað sjálfur úr gatinu, auk þess sem það eykur líkurnar á mikilli bólgu, samgróningi og öðrum kvillum.

  • Ef skart er of langt eykur það líkurnar á óþarfa áreiti á gatinu auk þess sem líkurnar á að gatið skekkist með tímanum aukast.

  • Þykkt lokka er mikilvæg því ef lokkur er of þunnur getur hann þrýsts út úr húðinni, þetta er svokallað “cheese cutter effect”.  Þykkari lokkar = meiri stöðugleiki. 



2. Lokkar í nýjum götum verða að vera úr öruggum efnum.

  • Títaníum: Léttur málmur sem er fullkomin fyrir fólk sem hefur áhyggjur af nikkelofnæmi, Títaníum er hægt að litabreyta með rafskauti án þess að það komi niður á gæðum málmsins. Títaníum sem er öruggt að nota til ígræðslu eða í ný göt eru í gæðaflokki ASTM F-136, ASTM F1295, ISO 5832-3 eða ASTM F-67. 

  • Gull: Gull, hvítagull og rósagull er öruggt í ný göt en einungis ef það er 14 karöt eða hærra, nikkel og kadmíumfrítt. Gull í hærri karötum en 18 er of mjúkt fyrir lokka því yfirborð þeirra rispast auðveldlega, gullhúðaðir lokkar eru ekki öruggir sem fyrstu lokka vegna þess að þeir eru húðaðir með þunnri gullhúð sem getur flagnað af eða rispast af en það á einungis við um lokkin sjálfan en ekki toppa eða kúlur.

  • Stál ‘‘Læknastál'': Öruggt ef það er frá hágæða framleiðendum. Aðeins tvær gerðir læknastáls eru öruggar og það eru : ASTM F-138 eða ISO 5832-1. Þeir sem eru mjög viðkvæmir fyrir nikkeli ættu að forðast stál þar sem það inniheldur nikkel í litlu magni. 

  • Gler: Aðeins þrjár tegundir af gler lokkum eru öruggar sem fyrstu lokkar; ‘’Fused quartz glass, lead-free borosilicate & lead-free soda-lime glass’’. Þá má dauðhreinsa í dauðhreinsi potti og nota sem fyrstu lokka í stærri göt.

    Annað

  • Níóbíum: Hefur verið notað af göturum með góðum árangri, en er mun óalgengara heldur en títaníum. Það er mjög líkt títaníumi en er ekki öruggt til ígræðslu þó það sé öruggt í ný göt. Eins og títaníum er hægt að lita breyta niobium með rafskauti, en bæði niobium og titanium sem hefur verið lita breytt geta breyst aftur í sinn upprunalega lit með tímanum vegna sýrustigs líkamans og annara utanaðkomandi þátta. 

  • Platínum: Þungur málmur í háum gæðaflokki sem er mjög góður í ný göt, hins vegar er platínum bæði sjaldgæfur og dýr vegna þess að erfitt er að vinna með hann og því fáir sem framleiða skart úr platínum.



    3. Lokkar í nýjum götum verða að vera innþræddir eða með pinnafestingu (threadless).

  • Innþræddir lokkar: eru kjörnir í ný göt því sá hluti lokksins sem fer í gegn um húðina er sléttur og þræðing er á kúlunum sem skrúfast inn í lokkinn sjálfann. Innþræddir lokkar koma í veg fyrir að gat rispist að innan þegar þeir eru settir í og teknir úr sem er mjög mikilvægt að forðast á nýjum götum.

  • Pinnafesting (threadless): Pinnafestir lokkar eru einnig góðir í flest ný göt því á þeim er engin þræðing heldur er gat í lokkinn sjálfan og pinni á kúlunum sem skorðast af innan í lokknum.

    Forðast skal þessa lokka:

  • Útþræddir lokkar: Á útþræddum lokkum er skrúfumynstur skorið í lokkinn sjálfan og skrúfast inn í kúluna. Þar sem endinn á lokknum er hrjúfur þá á hann auðvelt með að rispa gatið þegar hann er settur í eða tekinn úr, og því er alls ekki mælt með að nota þessa lokka í ný eða gróin göt.

Allar betri götunarstofur eiga að eiga ‘‘mill certs’’ sem eru vottorð um gæði lokkana sem notaðir eru.

Þekking og reynsla gatara

Höfundur: Glódís

Að læra að verða gatari er ekki auðvelt, það tekur tíma og þrautseigju að læra að framkvæma líkamsgatanir á öruggan og faglegan hátt. Götun er lærð með verklegri kennslu og góð kennsla felur í sér langa lærlingsstöðu með hæfum gatara. Flestir gatarar sem byrjuðu fyrir 10+ árum lærðu með því að lesa sér til, tala við reyndari gatara og með tilraunastarfssemi. Tímarnir voru aðrir þá, en í dag er ekki viðeigandi að byrja að læra sjálfur að gata.   

Sem gatari með yfir áratugs langa reynslu, þá er það mér mjög mikilvægt að vera sífellt að uppfæra þekkingu mína. Það er margt sem hefur breyst frá því að ég byrjaði og götunarheimurinn er sífellt að þróast! 

Reynsla og þekking

Það er því miður þannig að sumir byrja að gata fólk án þess að hafa reynslu eða þekkingu. Sem dæmi eru helgarnámskeið eða götunaskólar sem spanna stutta tíma ekki nægileg þjálfun til að gerast gatari og því ætti alltaf að skoða hvort það sé eina ‘’menntun’’ sem gatarinn hefur. 

Það er mikilvægt að skoða hve lengi gatarinn sem þú ætlar til hafi verið starfandi, hvernig hann lærði og hvað hann gerir til að halda þekkingunni við og bæta hana og uppfæra eftir nýjustu aðferðum, til dæmis með því að taka áframhaldandi námskeið um anatómíu, eftirmeðhöndlun gata, tækni og hreinlæti í götunarrýminu.

Gatarinn sem þú velur ætti að geta svarað öllum spurningum sem gætu komið upp, hjálpað þér að velja viðeigandi skart fyrir hvert gat, gefið þér góðar umhirðuleiðbeiningar og sagt þér frá öllum mögulegum fylgikvillum sem gætu komið upp í gróunarferlinu. Ef þér finnst svörin við spurningum þínum ekki fullnægjandi þá ráðlegg ég þér að finna gatara með meiri reynslu og þekkingu.

Hreinlæti

Áhöld skulu vera dauðhreinsuð, sótthreinsuð eða einnota eftir því sem við á. Nálar, tangir og lokkar eiga ávallt að vera í dauðhreinsuðum lokuðum umbúðum og sett á bakka eða dauðhreinsað í kasettu í statim autoklava. Allar umbúðir ættu að vera opnaðar fyrir framan þig. Það er algjört lykilatriði að gatari notist við dauðhreinsibúnað (e. autoclave) til að sjá til þess að lokkar og áhöld séu dauðhreinsuð. 

Gatarinn ætti að skipta um hanska ef hann snertir eitthvað annað en götunarstaðinn og það sem notað er til að gata. Ermar á flíkum mega ekki ná að hönskum og skipta á um hanska eftir uppsetningu og fyrir götun.

Hverja nál má eingöngu nota í eina götun og á í framhaldi að vera sett í lokað nálabox sérstaklega hönnuð fyrir notaðar nálar, það eru venjulega gul eða rauð box. Box verða að vera með föstu loki og mega alls ekki vera á gólfinu. Við erum með okkar vegghengt sem er öruggt og þægilegt. 

Starfsleyfi

Til að fá starfsleyfi á Íslandi þarf einungis að uppfylla lágmarkskröfur heilbrigðiseftirlits á 1-2 ára fresti, en það segir lítið um þekkingu gatara og hreinlæti á stofunni frá degi til dags. Ef gatari eða sofa eru að starfa án starfsleyfis (það á að hanga þar sem allir geta séð það) þá ráðlegg ég að hringja í heilbrigðiseftirlitið og tilkynna það.

Olíur og ný eða gróandi göt

Höfundur: Diljá

Mig langar að tala um hvers vegna olíur eiga ekki heima á nýjum og gróandi götum. Það er mjög mikið af mismunandi upplýsingum um þetta á internetinu og meðal gatara, en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að allir gatarar sem eru “up to date” á umhirðu gata séu sammála mér.

Umhirða á líkamsgötum hefur þróast mikið með árunum og mörg okkar höfum reynt ýmislegt á eigin skinni í gegnum tíðina sem við vitum í dag að er ekki málið. Reynsla og aukin þekking hefur komið okkur á þann stað sem við erum á í dag og leiðbeiningar APP (Association of Professional Piercers) eru þær sem gagnast flestum.

Það eru til fyrirtæki sem framleiða olíur sem umhirðu fyrir göt og það eru sannarlega gatarar þarna úti sem enn þann dag í dag sem mæla með sérstökum "piercing olíum", tea tree olíu o.s.frv. En mér persónulega finnst óábyrgt að selja fólki einhverjar töfralausnir fyrir gróanda þegar við vitum hvernig gróandi virkar. Saltlausn er klárlega hjálpleg fyrir gróandi göt, linkur er hér að neðan. En restin af gróanda er í höndum líkamans, og það tekur einfaldlega sinn tíma.

Það eru til ýmsar sögur af "ég notaði samt tea tree/mulið aspirín/aloe vera/ fucidin/ etc. á mín göt og það virkaði" eða þið vitið, eitthvað svona sem við mælum alls ekki með. En það þýðir ekki að þessir hlutir séu gott aftercare, heldur að göt hjá sumum hafi tekist að gróa þrátt fyrir hluti sem vinna í raun gegn gróanda. Þannig að ef þið þekkið einhvern, hvers gat gréri fínt þrátt fyrir að olía hafi verið notuð, þá er það samt ekki eitthvað sem er að fara að virka almennt, og er líklegra til að valda veseni heldur en ekki. Vona að adhd-ið mitt sé að koma þessu frá sér semí skiljanlega!

Sé umhirða nýrra gata sett í þrjú meginatriði eru þau:

  • Halda götum hreinum

  • Halda þeim þurrum

  • Forðast hnjask

Eða eins og Elayne Angel (höfundur Piercing Bible) segir: Keep it clean, keep it dry, avoid trauma!

Við viljum hreinsa götin með saltvatnslausn 1-2x á dag og alls ekki snerta þau nema með hreinum höndum. Við þerrum gatið varlega bæði eftir sturtu og eftir að við þrífum gatið. Svo viljum við passa að gatið rekist eða flækist ekki í og vera ekki að snúa eða fikta í lokknum.

Það þarf að lofta um göt, á síðu APP segir t.a.m.: “Avoid cleaning with alcohol, hydrogen peroxide, antibacterial soaps, iodine, or any harsh products, as these can damage cells. Also avoid ointments as they prevent necessary air circulation”

Þegar við setjum olíu á gat þá erum við að hindra eðlilegan gróanda - það loftar ekki um og bakteríur og óhreinindi loða við olíuna, eðlileg “útferð” úr gati festist jafnvel inni í gatinu og veldur veseni. Fyrir utan náttúrlega að sumar olíur eru fáránlega sterkar og geta brennt húðina, til dæmis tea tree olía.

Margir hafa prufað olíur til að reyna að laga gat sem er með stanslaust vesen. En ef þú ert með vesenisgat er best að fara og tala við góðan gatara sem hjálpar þér að finna rót vandans. Yfirleitt eru göt sem neita að gróa götuð á röngum halla eða hafa skekkst eftir hnjask/þunga, þau eru með lélegum lokkum eða röngum lokk fyrir gatið, gatið er þrifið of oft, aldrei þrifið eða þrifið með röngum aðferðum. Olía mun ekki laga þessa hluti.

Olíur eru til margs gagnlegar, góðar og nauðsynlegar, en olíur eiga ekki heima á götum sem eru að gróa, frekar en krem, make up og hvað annað.

Upplýsingar um saltlausn:

https://www.neilmedpac.com/.../how-does-saline-solution.../

Vandinn við fiðrildafestingar

Höfundur: Diljá

Ég ætla aðeins að tala um festingar á skotlokkum, sem kallast yfirleitt “butterfly back” eða fiðrildafestingar. Þessar festingar eru reyndar á allskonar eyrnalokkum úr ýmsum verslunum og oft er fólk með slíkar festingar í grónu gati án vandræða nema ef lokkurinn og/eða festingin er úr einhverjum vafasömum málm.

MIKILVÆGT: Góðir gatarar nota hvorki götunarbyssur né skotlokka.


Yfirleitt þegar ný göt eru með svona festingu er það vegna þess að götin voru gerð með götunarbyssu. Skotlokkar eru ekki í góðum gæðum, málmurinn er ekki upp á marga fiska og yfirborðið er illa pússað svo bakteríur safnast í rispum, og rispurnar erta gatið einnig innan frá. Festingarnar klemmast upp við eyrnasnepilinn og gefa ekkert pláss fyrir bólgumyndun, þær flækjast auðveldlega í hári og óhreinindi byggjast auðveldlega upp. Það er ástæða fyrir því að við forðumst þessa lokka!

Beisik skotlokkur

Það eru síðan sumir gatarar sem gera göt með nál en setja síðan örþunnum lokk í lélegum gæðum með fiðrildabaki í gatið og kalla það gott, og það er alls ekki í lagi. Lokkar sem henta í gróin göt og eru með fiðrildabaki eru oft aðeins 0.7-0.8 mm á þykkt sem er alls ekki málið í ný göt, en því miður sér maður það stundum.

EN plot twist! Og ég segi þetta sem manneskja sem hef mikla fordóma fyrir fiðrildafestingum svona almennt séð. Það eru til aðstæður þar sem fiðrildafestingar í nýjum götumeiga sinn tilverurétt, og það eru til góðir gatarar sem eiga lokka í góðum gæðum sem eru með fiðrildabaki (EKKI SKOTLOKKA). Sem dæmi eru lokkar með fiðrildafestingu fáanlegir hjá Anatometal, sem er framleiðandi í hæsta gæðaflokki. Gatarar sem kjósa að eiga lokka með fiðrildafestingu verða að gæta þess að gæðin séu upp á 10 og nota þá oft einungis í tilfellum þar sem gatþegi á t.d. erfitt með að herða kúlu á labret-pinna eða býr á rural svæði einhvers staðar í heiminum þar sem erfitt er að nálgast nýjan lokk eða kúlu ef eitthvað kemur upp á. Ég myndi þó persónulega nota lokka með pinnafestingu (threadless) í þeim aðstæðum því þá þarf ekki að herða kúluna/toppinn. En ég meina, ástæðurnar geta svo sem verið fjölbreyttar, en fólk með fiðrildafestingu í nýju gati þarf að vita að það getur verið vont að sofa á þeim og festingarnar vilja flækjast auðveldlega í og fyllast af óhreinindum. Það þarf því að hugsa extra vel upp á að halda lokkunum hreinum. 

 

Eru götunarbyssur öruggar? - UPPFÆRT

Höfundur: Diljá


Það er alltaf að verða algengara að fólk fari sjálft eða með börnin sín í eyrnagötun til gatara, í stað þess að fara á staði þar sem notast er við götunarbyssur. Við tökum þessu mjög fagnandi enda höfum við sjálfar frætt ótal manns um skaðsemi götunarbyssa. Við dæmum engan fyrir að hafa farið í góðri trú og fengið sér gat með byssu - ég gerði það sjálf þónokkrum sinnum sem unglingur! En við lifum og lærum, og ég ætla að tala aðeins um af hverju við gatarar eru svona mikið á móti götunarbyssum.

ATH.: Það er ekki samasem merki að nota ekki götunarbyssu og að vera góður gatari eða með velferð viðskiptavinar að leiðarljósi. Ég hvet fólk til að vanda valið á sínum gatara.

ATH. 2: Greinin er skrifuð með fræðsluefni APP til hliðsjónar (linkur neðst), allar fullyrðingar eru þaðan en ekki bara mín persónulega skoðun.

1. Götunarbyssur eru ekki dauðhreinsanlegar

Það er ekki hægt að setja götunarbyssur í dauðhreinsiofn (autoclava). Krafturinn í götunarbyssum veldur því að blóð getur orðið að ótal örsmáum ögnum sem húðar byssuna innan frá. Eyra og eyrnalokkur getur því komist í beina snertingu við blóð og líkamsvessa annarra. Þannig geta götunarbyssur dreift smitsjúkdómum, og í því samhengi má nefna að lifrarbólguveiran getur lifað á yfirborðum í nokkrar vikur. 

2. Götunarbyssur valda óþarflega miklu hnjaski á húðinni

Oddurinn á byssulokkum virðist beittur, en hann er það ekki. Þegar skotið er í gegnum eyra er í rauninni verið að þrýsta óbeittum hlut í gegnum húðina. Þetta getur valdið óþarflega miklum sársauka, bólgumyndun og öramyndun. Ef skotið er í gegnum brjósk geta afleiðingarnar verið brotið brjósk, mikil (e. excessive) öramyndun og auricular chondritis (sorrí, ég veit ekki íslenska heitið!).

3. Lokkarnir sem notaðir eru í götunarbyssur eru illa hannaðir fyrir húðgöt

Eyrnalokkar fyrir götunarbyssur eru of stuttir fyrir suma eyrnasnepla og fyrir flest allt brjósk. Krafturinn í götunarbyssum er nógu mikill til að klemma lokknum upp við eyrað, og getur það heft loft- og blóðflæði, aukið bólgumyndun, öramyndun og valdið því að lokkurinn eða festingin grafi sig inn í húðina og festist. Flestir, ef ekki allir, byssulokkar eru ekki í ASTM (implant grade) gæðaflokki, og eiga því ekki heima í nýjum og gróandi götum.

4. Eru til götunarbyssur sem eru öruggar?

Þessi punktur er nýr, þar sem við höfum fengið fyrirspurnir hvort við myndum nota ákveðnar gerðir af götunarbyssum. Til er framleiðandi sem auglýsir “sterílan og blíðan (e.gentle) götunarbúnað” þar sem hægt sé að velja eyrnalokka úr 18kt, 14kt og 10kt gulli, 24kt gullhúðun, læknastáli og “medical grade títaníum”. Sami framleiðandi hvetur til götunar í “friðhelgi eigin heimilis”, sem sagt heimagötunar, segir notendum að snúa lokkunum sínum meðan á gróanda stendur og að gróandi á götum í brjóski sé 12 vikur. Eftir 12 vikur geturðu farið að leika þér með nýja stíla!

Ég ætla að útskýra í nokkrum punktum hvað er athugavert við þetta allt saman svo þetta verði ekki algjör langloka.

  • Gull er viðeigandi í ný göt ef það er 14kt - 18kt, og nikkel- og kadmíumfrítt. Gull sem er lægra en 14kt er of blandað með ýmsum málmum, og gull sem er hærra en 18kt er of mjúkur málmur fyrir ný göt því hann getur auðveldlega rispast. Gullhúðaður lokkur er ekki viðeigandi heldur þar sem húðunin gæti rispast og flagnað inni í gatinu sem við viljum alls ekki.

  • “Læknastál” og “læknatítaníum” segir ekkert til um yfirborð lokksins, og það að málmurinn sé innan staðla Evrópusambandsins segir okkur ekkert heldur. Vandað yfirborð skiptir miklu máli, því örsmáar rispur á yfirborði lokka geta ýft gatið upp að innan og safnað bakteríum.

  • Það er mjög óábyrgt að hvetja til heimagötunar vegna sýkingarhættu og einnig vegna þess að jafnvel þó hreinlæti væri tipp topp, að þá er götun meira en bara það - Ábyrg götun er samspil hreinlætis, vandaðra lokka, vandaðra vinnubragða og réttra umhirðuleiðbeininga - sem þetta tiltekna fyrirtæki er ekki með.

  • Það er mjög óábyrgt að hvetja til þess að stinga í brjósk með götunarbyssu. Þó svo að lokkarnir séu með “beittum odd” þá er hann það í raun og veru alls ekki. Það að stinga óbeittum hlut í gegnum húð og hvað þá brjósk, veldur mun meira álagi á húðina og getur valdið mun meiri sársauka, bólgumyndun og öramyndun.

  • Það á alls ekki að snúa lokkum með á gróanda stendur. Það eykur líkur á ertingu og sýkingum.

  • Göt í brjóski geta gróið á 12 vikum, en það er mjög óalgengt og hjá flestum tekur gróandi 6-9+ mánuði. Það að fullyrða að brjósk sé gróið á 12 vikum (sérstaklega gat gert með byssu) og hvetja til þess að prufa nýja lokka að þeim tíma liðnum er ávísun á sýkingar.

  • Að lokum: Jafnvel þó að götunarbyssa sé útbúin einhverjum þar til gerðum hylkjum utan um lokkinn sem gæti þess að lokkurinn komist aldrei í snertingu við byssuna og líkamsvessa annara, þá er samt ennþá “blunt force trauma” því lokknum er þvingað í gegnum húð, lokkarnir eru ekki úr viðeigandi málmum eða gæðum, og manneskja sem notar götunarbyssu er ekki lærður gatari og er meira umhugað um peninga heldur en þína velferð.

Aukapunktur 

Ég hef heyrt ótal slæmar sögur af byssugötun. Á þeim stöðum þar sem boðið er upp á byssugötun eru umhirðuleiðbeiningar að auki oft mjög úreltar, og ýtir það enn frekar undir sýkingarhættu og erfiðan gróanda. 

Heimild:

Safe Piercing - APP