Höfundur: Diljá
Við fáum reglulega fyrirspurnir um hvort við gerum “snake eyes”.
Snake eyes er gat sem fer þversum í gegnum tungubroddinn (e. horizontal). Þau virðast mjög krúttleg, tvær litlar kúlur framan á tungunni - kjút! Margir gatarar með langan starfsferil að baki hafa boðið upp á þessi göt á einhverjum tímapunkti, en reynslan og þekkingin sem skapast hefur í götunarheiminum í gegnum tíðina þýðir að enginn gatari ætti að bjóða upp á snake eyes í dag.
Ástæðurnar:
Tungan samanstendur af tveimur vöðvum. Gatið fer í gegnum vöðvana tvo og tengir þá saman, og heftir þar með náttúrulegar hreyfingar tungunnar. Þetta getur valdið erfiðleikum við að tala, tyggja og kyngja.
Tungubroddurinn liggur upp við tennurnar, og þar sem gatið fer í gegnum tungubroddinn eru kúlurnar alltaf að nuddast upp við tennurnar og/eða góminn. Þetta getur valdið óafturkræfum tann, góma- og glerjungsskemmdum, auk þess að lokkurinn getur flækst í tönnunum og rifnað.
Það eru miklar líkur á að líkaminn hafni þessu gati og samhliða því líkur á öramyndun og jafnvel taugaskemmdum.
En gildir þá það sama ekki um öll önnur munngöt?
Nei, alls ekki. Það þarf vissulega að passa að lokkur í munngati sé passlegur, þ.e. að styttri lokkur sé settur í gatið eftir að bólgan er farin að hjaðna, sem og vera með passlegan lokk þegar gatið er gróið. Það þarf að passa að vera ekki að fikta í munngötum með tönnunum, því það getur valdið tannskemmdum. En þessi klassísku munngöt bera ekki með sér sömu áhættur og snake eyes.