Olíur og ný eða gróandi göt

Höfundur: Diljá

Mig langar að tala um hvers vegna olíur eiga ekki heima á nýjum og gróandi götum. Það er mjög mikið af mismunandi upplýsingum um þetta á internetinu og meðal gatara, en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að allir gatarar sem eru “up to date” á umhirðu gata séu sammála mér.

Umhirða á líkamsgötum hefur þróast mikið með árunum og mörg okkar höfum reynt ýmislegt á eigin skinni í gegnum tíðina sem við vitum í dag að er ekki málið. Reynsla og aukin þekking hefur komið okkur á þann stað sem við erum á í dag og leiðbeiningar APP (Association of Professional Piercers) eru þær sem gagnast flestum.

Það eru til fyrirtæki sem framleiða olíur sem umhirðu fyrir göt og það eru sannarlega gatarar þarna úti sem enn þann dag í dag sem mæla með sérstökum "piercing olíum", tea tree olíu o.s.frv. En mér persónulega finnst óábyrgt að selja fólki einhverjar töfralausnir fyrir gróanda þegar við vitum hvernig gróandi virkar. Saltlausn er klárlega hjálpleg fyrir gróandi göt, linkur er hér að neðan. En restin af gróanda er í höndum líkamans, og það tekur einfaldlega sinn tíma.

Það eru til ýmsar sögur af "ég notaði samt tea tree/mulið aspirín/aloe vera/ fucidin/ etc. á mín göt og það virkaði" eða þið vitið, eitthvað svona sem við mælum alls ekki með. En það þýðir ekki að þessir hlutir séu gott aftercare, heldur að göt hjá sumum hafi tekist að gróa þrátt fyrir hluti sem vinna í raun gegn gróanda. Þannig að ef þið þekkið einhvern, hvers gat gréri fínt þrátt fyrir að olía hafi verið notuð, þá er það samt ekki eitthvað sem er að fara að virka almennt, og er líklegra til að valda veseni heldur en ekki. Vona að adhd-ið mitt sé að koma þessu frá sér semí skiljanlega!

Sé umhirða nýrra gata sett í þrjú meginatriði eru þau:

  • Halda götum hreinum

  • Halda þeim þurrum

  • Forðast hnjask

Eða eins og Elayne Angel (höfundur Piercing Bible) segir: Keep it clean, keep it dry, avoid trauma!

Við viljum hreinsa götin með saltvatnslausn 1-2x á dag og alls ekki snerta þau nema með hreinum höndum. Við þerrum gatið varlega bæði eftir sturtu og eftir að við þrífum gatið. Svo viljum við passa að gatið rekist eða flækist ekki í og vera ekki að snúa eða fikta í lokknum.

Það þarf að lofta um göt, á síðu APP segir t.a.m.: “Avoid cleaning with alcohol, hydrogen peroxide, antibacterial soaps, iodine, or any harsh products, as these can damage cells. Also avoid ointments as they prevent necessary air circulation”

Þegar við setjum olíu á gat þá erum við að hindra eðlilegan gróanda - það loftar ekki um og bakteríur og óhreinindi loða við olíuna, eðlileg “útferð” úr gati festist jafnvel inni í gatinu og veldur veseni. Fyrir utan náttúrlega að sumar olíur eru fáránlega sterkar og geta brennt húðina, til dæmis tea tree olía.

Margir hafa prufað olíur til að reyna að laga gat sem er með stanslaust vesen. En ef þú ert með vesenisgat er best að fara og tala við góðan gatara sem hjálpar þér að finna rót vandans. Yfirleitt eru göt sem neita að gróa götuð á röngum halla eða hafa skekkst eftir hnjask/þunga, þau eru með lélegum lokkum eða röngum lokk fyrir gatið, gatið er þrifið of oft, aldrei þrifið eða þrifið með röngum aðferðum. Olía mun ekki laga þessa hluti.

Olíur eru til margs gagnlegar, góðar og nauðsynlegar, en olíur eiga ekki heima á götum sem eru að gróa, frekar en krem, make up og hvað annað.

Upplýsingar um saltlausn:

https://www.neilmedpac.com/.../how-does-saline-solution.../