Er læknastál öruggur málmur?

Höfundur: Diljá

Ég tala oft um velferð viðskiptavina einfaldlega af því að hún skiptir mig ótrúlega miklu máli. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að gera götunarferlið öruggt og þægilegt fyrir viðskiptavini og leggjum áherslu á vandaða lokka og nálar. Einn liður í því er að við notum ígræðsluhæfa títaníumlokka (e. implant grade titanium). Þeir eru með vandað yfirborð, eru sterkari en stál, léttari en stál og auk þess nikkelfríir - sem stállokkar eru ekki. Margir halda að læknastál sé gæðamálmur, vandaðasti og öruggasti málmur sem þú getir fundið fyrir húðgöt, enda er það oft auglýst svoleiðis. En það er það hins vegar ekki rétt og ég hvet fólk að spyrja gatara úr hverju lokkarnir þeirra eru. 

ATH. “Læknastál” er ryðfrítt stál, oftast nær 316L. Þessvegna tala ég svolítið um 316L og læknastál sem sama hlutinn þó svo að í einstaka tilfellum sé öðrum gerðum af stáli lýst sem læknastáli. Ryðfrítt stál er til margra hluta nytsamlegt, það er t.d. mjög sterkt og það ryðgar ekki. En hér útlista ég hvers vegna 316L stál/læknastál á ekki heima í nýjum eða gróandi götum.

Nokkrir punktar um “læknastál” og 316L stál:

Stállokkur. Mynd af Google.

  • Það vantar alveg skýra skilgreiningu á hvað læknastál eiginlega er, það er til dæmis ekki samheiti yfir 316 stál eða ryðfrítt stál.

    • Læknastál er (skrítin) þýðing á “surgical steel” sem beinþýðist sem skurðlækningastál, sem er loðið hugtak til að byrja með. Surgical steel er í raun og veru bara orð sem oft er notað um ryðfrítt stál (aðallega 316L stál) sem notað er í læknisfræðilegum tilgangi, sem og til að virka traustvekjandi.

  • Þó svo að 316L stál sé ryðfrítt þá er 316L ekki ígræðsluhæft og á því ekki langtíma erindi inn í líkama fólks ( þar með ný og gróandi göt). 

    • Það er mjög mikilvægt að húðgöt séu gerð með ígræðsluhæfum (e. implant grade) lokkum.

    • Ígræðsluhæfni málms er metin út frá því hversu vel pússað yfirborðið er, auk þess hvort málmurinn sjálfur henti mannslíkamanum.

  • 316L lokkar eru mun minna glansandi en hágæðalokkar. Þetta er vegna þess að yfirborðið á 316L lokkum er ekki nægilega vel pússað og það eru örsmáar rispur á yfirborðinu sem geta safnað í sig bakteríum og ert gatið innan frá. Þetta getur ert jafnvel gróin göt.

  • 316L stál inniheldur 10-13% nikkel.

    • 316L stál stenst nikkel mælikvarða Evrópusambandsins (e. EU directives on Nickel ion migration), en getur þó hugsanlega haft áhrif á þá sem eru mjög næmir fyrir nikkeli.  

  • Það er ekki í lagi að nota í 316L lokka í ný göt. 

    • Það er enginn trúverðulegur gatari að gata með 316L lokkum af ástæðunum gefnum hér að ofan. 

      • 316L stállokkar eru mun ódýrari en títaníum, og því eru alveg örugglega margir gatarar * almennt * (er ekki endilega að tala um Ísland) sem spara fullt af peningum með því að kaupa ódýrari - og lélegri - lokka á kostnað viðskiptavinarins, því það er viðskiptavinurinn sem þarf síðan að díla við erfiðari gróanda og jafnvel ofnæmisviðbrögð.

    • Ef gatari ætlar að nota stállokka þá ættu þeir að vera stál af gerðinni ASTM F138/F139 316-LVM eða ISO 32-1, þar sem það stál er ígræðsluhæft. 

Heimildir:

https://safepiercing.org/jewelry-for-initial-piercings/

https://catlogix.com/pages/is-stainless-steel-hypoallergenic