Höfundur: Diljá
Ég ætla aðeins að tala um festingar á skotlokkum, sem kallast yfirleitt “butterfly back” eða fiðrildafestingar. Þessar festingar eru reyndar á allskonar eyrnalokkum úr ýmsum verslunum og oft er fólk með slíkar festingar í grónu gati án vandræða nema ef lokkurinn og/eða festingin er úr einhverjum vafasömum málm.
MIKILVÆGT: Góðir gatarar nota hvorki götunarbyssur né skotlokka.
Yfirleitt þegar ný göt eru með svona festingu er það vegna þess að götin voru gerð með götunarbyssu. Skotlokkar eru ekki í góðum gæðum, málmurinn er ekki upp á marga fiska og yfirborðið er illa pússað svo bakteríur safnast í rispum, og rispurnar erta gatið einnig innan frá. Festingarnar klemmast upp við eyrnasnepilinn og gefa ekkert pláss fyrir bólgumyndun, þær flækjast auðveldlega í hári og óhreinindi byggjast auðveldlega upp. Það er ástæða fyrir því að við forðumst þessa lokka!
Það eru síðan sumir gatarar sem gera göt með nál en setja síðan örþunnum lokk í lélegum gæðum með fiðrildabaki í gatið og kalla það gott, og það er alls ekki í lagi. Lokkar sem henta í gróin göt og eru með fiðrildabaki eru oft aðeins 0.7-0.8 mm á þykkt sem er alls ekki málið í ný göt, en því miður sér maður það stundum.
EN plot twist! Og ég segi þetta sem manneskja sem hef mikla fordóma fyrir fiðrildafestingum svona almennt séð. Það eru til aðstæður þar sem fiðrildafestingar í nýjum götumeiga sinn tilverurétt, og það eru til góðir gatarar sem eiga lokka í góðum gæðum sem eru með fiðrildabaki (EKKI SKOTLOKKA). Sem dæmi eru lokkar með fiðrildafestingu fáanlegir hjá Anatometal, sem er framleiðandi í hæsta gæðaflokki. Gatarar sem kjósa að eiga lokka með fiðrildafestingu verða að gæta þess að gæðin séu upp á 10 og nota þá oft einungis í tilfellum þar sem gatþegi á t.d. erfitt með að herða kúlu á labret-pinna eða býr á rural svæði einhvers staðar í heiminum þar sem erfitt er að nálgast nýjan lokk eða kúlu ef eitthvað kemur upp á. Ég myndi þó persónulega nota lokka með pinnafestingu (threadless) í þeim aðstæðum því þá þarf ekki að herða kúluna/toppinn. En ég meina, ástæðurnar geta svo sem verið fjölbreyttar, en fólk með fiðrildafestingu í nýju gati þarf að vita að það getur verið vont að sofa á þeim og festingarnar vilja flækjast auðveldlega í og fyllast af óhreinindum. Það þarf því að hugsa extra vel upp á að halda lokkunum hreinum.