Vandinn við fiðrildafestingar

Höfundur: Diljá

Ég ætla aðeins að tala um festingar á skotlokkum, sem kallast yfirleitt “butterfly back” eða fiðrildafestingar. Þessar festingar eru reyndar á allskonar eyrnalokkum úr ýmsum verslunum og oft er fólk með slíkar festingar í grónu gati án vandræða nema ef lokkurinn og/eða festingin er úr einhverjum vafasömum málm.

MIKILVÆGT: Góðir gatarar nota hvorki götunarbyssur né skotlokka.


Yfirleitt þegar ný göt eru með svona festingu er það vegna þess að götin voru gerð með götunarbyssu. Skotlokkar eru ekki í góðum gæðum, málmurinn er ekki upp á marga fiska og yfirborðið er illa pússað svo bakteríur safnast í rispum, og rispurnar erta gatið einnig innan frá. Festingarnar klemmast upp við eyrnasnepilinn og gefa ekkert pláss fyrir bólgumyndun, þær flækjast auðveldlega í hári og óhreinindi byggjast auðveldlega upp. Það er ástæða fyrir því að við forðumst þessa lokka!

Beisik skotlokkur

Það eru síðan sumir gatarar sem gera göt með nál en setja síðan örþunnum lokk í lélegum gæðum með fiðrildabaki í gatið og kalla það gott, og það er alls ekki í lagi. Lokkar sem henta í gróin göt og eru með fiðrildabaki eru oft aðeins 0.7-0.8 mm á þykkt sem er alls ekki málið í ný göt, en því miður sér maður það stundum.

EN plot twist! Og ég segi þetta sem manneskja sem hef mikla fordóma fyrir fiðrildafestingum svona almennt séð. Það eru til aðstæður þar sem fiðrildafestingar í nýjum götumeiga sinn tilverurétt, og það eru til góðir gatarar sem eiga lokka í góðum gæðum sem eru með fiðrildabaki (EKKI SKOTLOKKA). Sem dæmi eru lokkar með fiðrildafestingu fáanlegir hjá Anatometal, sem er framleiðandi í hæsta gæðaflokki. Gatarar sem kjósa að eiga lokka með fiðrildafestingu verða að gæta þess að gæðin séu upp á 10 og nota þá oft einungis í tilfellum þar sem gatþegi á t.d. erfitt með að herða kúlu á labret-pinna eða býr á rural svæði einhvers staðar í heiminum þar sem erfitt er að nálgast nýjan lokk eða kúlu ef eitthvað kemur upp á. Ég myndi þó persónulega nota lokka með pinnafestingu (threadless) í þeim aðstæðum því þá þarf ekki að herða kúluna/toppinn. En ég meina, ástæðurnar geta svo sem verið fjölbreyttar, en fólk með fiðrildafestingu í nýju gati þarf að vita að það getur verið vont að sofa á þeim og festingarnar vilja flækjast auðveldlega í og fyllast af óhreinindum. Það þarf því að hugsa extra vel upp á að halda lokkunum hreinum. 

 

Eru götunarbyssur öruggar? - UPPFÆRT

Höfundur: Diljá


Það er alltaf að verða algengara að fólk fari sjálft eða með börnin sín í eyrnagötun til gatara, í stað þess að fara á staði þar sem notast er við götunarbyssur. Við tökum þessu mjög fagnandi enda höfum við sjálfar frætt ótal manns um skaðsemi götunarbyssa. Við dæmum engan fyrir að hafa farið í góðri trú og fengið sér gat með byssu - ég gerði það sjálf þónokkrum sinnum sem unglingur! En við lifum og lærum, og ég ætla að tala aðeins um af hverju við gatarar eru svona mikið á móti götunarbyssum.

ATH.: Það er ekki samasem merki að nota ekki götunarbyssu og að vera góður gatari eða með velferð viðskiptavinar að leiðarljósi. Ég hvet fólk til að vanda valið á sínum gatara.

ATH. 2: Greinin er skrifuð með fræðsluefni APP til hliðsjónar (linkur neðst), allar fullyrðingar eru þaðan en ekki bara mín persónulega skoðun.

1. Götunarbyssur eru ekki dauðhreinsanlegar

Það er ekki hægt að setja götunarbyssur í dauðhreinsiofn (autoclava). Krafturinn í götunarbyssum veldur því að blóð getur orðið að ótal örsmáum ögnum sem húðar byssuna innan frá. Eyra og eyrnalokkur getur því komist í beina snertingu við blóð og líkamsvessa annarra. Þannig geta götunarbyssur dreift smitsjúkdómum, og í því samhengi má nefna að lifrarbólguveiran getur lifað á yfirborðum í nokkrar vikur. 

2. Götunarbyssur valda óþarflega miklu hnjaski á húðinni

Oddurinn á byssulokkum virðist beittur, en hann er það ekki. Þegar skotið er í gegnum eyra er í rauninni verið að þrýsta óbeittum hlut í gegnum húðina. Þetta getur valdið óþarflega miklum sársauka, bólgumyndun og öramyndun. Ef skotið er í gegnum brjósk geta afleiðingarnar verið brotið brjósk, mikil (e. excessive) öramyndun og auricular chondritis (sorrí, ég veit ekki íslenska heitið!).

3. Lokkarnir sem notaðir eru í götunarbyssur eru illa hannaðir fyrir húðgöt

Eyrnalokkar fyrir götunarbyssur eru of stuttir fyrir suma eyrnasnepla og fyrir flest allt brjósk. Krafturinn í götunarbyssum er nógu mikill til að klemma lokknum upp við eyrað, og getur það heft loft- og blóðflæði, aukið bólgumyndun, öramyndun og valdið því að lokkurinn eða festingin grafi sig inn í húðina og festist. Flestir, ef ekki allir, byssulokkar eru ekki í ASTM (implant grade) gæðaflokki, og eiga því ekki heima í nýjum og gróandi götum.

4. Eru til götunarbyssur sem eru öruggar?

Þessi punktur er nýr, þar sem við höfum fengið fyrirspurnir hvort við myndum nota ákveðnar gerðir af götunarbyssum. Til er framleiðandi sem auglýsir “sterílan og blíðan (e.gentle) götunarbúnað” þar sem hægt sé að velja eyrnalokka úr 18kt, 14kt og 10kt gulli, 24kt gullhúðun, læknastáli og “medical grade títaníum”. Sami framleiðandi hvetur til götunar í “friðhelgi eigin heimilis”, sem sagt heimagötunar, segir notendum að snúa lokkunum sínum meðan á gróanda stendur og að gróandi á götum í brjóski sé 12 vikur. Eftir 12 vikur geturðu farið að leika þér með nýja stíla!

Ég ætla að útskýra í nokkrum punktum hvað er athugavert við þetta allt saman svo þetta verði ekki algjör langloka.

  • Gull er viðeigandi í ný göt ef það er 14kt - 18kt, og nikkel- og kadmíumfrítt. Gull sem er lægra en 14kt er of blandað með ýmsum málmum, og gull sem er hærra en 18kt er of mjúkur málmur fyrir ný göt því hann getur auðveldlega rispast. Gullhúðaður lokkur er ekki viðeigandi heldur þar sem húðunin gæti rispast og flagnað inni í gatinu sem við viljum alls ekki.

  • “Læknastál” og “læknatítaníum” segir ekkert til um yfirborð lokksins, og það að málmurinn sé innan staðla Evrópusambandsins segir okkur ekkert heldur. Vandað yfirborð skiptir miklu máli, því örsmáar rispur á yfirborði lokka geta ýft gatið upp að innan og safnað bakteríum.

  • Það er mjög óábyrgt að hvetja til heimagötunar vegna sýkingarhættu og einnig vegna þess að jafnvel þó hreinlæti væri tipp topp, að þá er götun meira en bara það - Ábyrg götun er samspil hreinlætis, vandaðra lokka, vandaðra vinnubragða og réttra umhirðuleiðbeininga - sem þetta tiltekna fyrirtæki er ekki með.

  • Það er mjög óábyrgt að hvetja til þess að stinga í brjósk með götunarbyssu. Þó svo að lokkarnir séu með “beittum odd” þá er hann það í raun og veru alls ekki. Það að stinga óbeittum hlut í gegnum húð og hvað þá brjósk, veldur mun meira álagi á húðina og getur valdið mun meiri sársauka, bólgumyndun og öramyndun.

  • Það á alls ekki að snúa lokkum með á gróanda stendur. Það eykur líkur á ertingu og sýkingum.

  • Göt í brjóski geta gróið á 12 vikum, en það er mjög óalgengt og hjá flestum tekur gróandi 6-9+ mánuði. Það að fullyrða að brjósk sé gróið á 12 vikum (sérstaklega gat gert með byssu) og hvetja til þess að prufa nýja lokka að þeim tíma liðnum er ávísun á sýkingar.

  • Að lokum: Jafnvel þó að götunarbyssa sé útbúin einhverjum þar til gerðum hylkjum utan um lokkinn sem gæti þess að lokkurinn komist aldrei í snertingu við byssuna og líkamsvessa annara, þá er samt ennþá “blunt force trauma” því lokknum er þvingað í gegnum húð, lokkarnir eru ekki úr viðeigandi málmum eða gæðum, og manneskja sem notar götunarbyssu er ekki lærður gatari og er meira umhugað um peninga heldur en þína velferð.

Aukapunktur 

Ég hef heyrt ótal slæmar sögur af byssugötun. Á þeim stöðum þar sem boðið er upp á byssugötun eru umhirðuleiðbeiningar að auki oft mjög úreltar, og ýtir það enn frekar undir sýkingarhættu og erfiðan gróanda. 

Heimild:

Safe Piercing - APP