Höfundur: Diljá
Eins og þið kannski vitið þá bjóðum við upp á lokka sem eru innþræddir (internally threaded) og lokka sem eru með pinnafestingu (threadless). Við kölluðum þá einu sinni þráðlausa lokka en það meikaði ekki alveg sens því farsímar eru þráðlausir en .. ekki eyrnalokkar 😅.
Við erum ekki með útþrædda lokka sem eru með skrúfgangnum á lokknum - við hvorki notum þá okkur sjálfar eða viðskiptavini okkar né seljum þá. Innþræddir eða pinnafestir lokkar hafa hinsvegar hvor um sig sýna eiginleika.
Það vefst fyrir mörgum hvernig pinnafestir lokkar virka eiginlega, svo hér ætla ég að útskýra málið!
Ólíkt innþræddum lokkum, þar sem kúlan/steinninn/toppurinn er með skrúfgangi sem skrúfast inn í lokkinn, þá eru toppar fyrir pinnafesta lokka með litlum pinna sem skorðast af inni í lokknum. Til að festa þá setur maður pinnann um það bil hálfa leið inn í pinnann, og beygir pinnann örlítið. Svo þrýstir maður pinnanum alveg inn, það á að vera smá fyrirstaða og oft heyrir maður hálfgert brakhljóð þegar hann fer alla leið inn í lokkinn. Mikilvægt er að beygla pinnann ekki of mikið þar sem hann gæti brotnað. Einnig er gott að toga létt í toppinn til að vera viss um að hann sé nægilega vel festur.
Kostir:
Auðvelt að losa þá með því að toga þá í sundur.
Auðvelt að festa þá (ég er að horfa á ykkur, fólk með gervineglur💅)
Það þarf ekki að herða þá reglulega eins og þrædda lokka (þó að það saki ekki að athuga af og til hvort þeir séu ekki alveg fastir ennþá)
Ef þú ert með gróið gat sem situr skakkt, þá er stundum hægt að manipúlera pinnafestum lokkum þannig þeir sitji beinir á húðinni.
Gallar:
ALLS EKKI hentugir fyrir tungugöt, smiley, tunguhaft. Þú vilt ekki vera með örmjóan pinna upp í þér, svo óvart kyngirðu honum og ert með beittan pinna innvortis!
Hentar líklega ekki (öllum) nöflum. Við höfum ekki boðið upp á pinnafesta naflalokka svo ég þekki það ekki af eigin reynslu, en ég hef heyrt frá öðrum göturum að vegna hreyfingar á svæðinu geti húðin þrýst á toppinn svo hann losni, eða að hann kippist af ef föt flækjast í.
Pinninn getur brotnað ef maður er harðhentur. Því er mikilvægt að fara varlega, eða jafnvel fá gatara til að aðstoða þig.
Ef pinni er úr gulli getur hann verið viðkvæmur. Pinnafestir gulltoppar eru því yfirleitt með pinna úr títaníum af þeim ástæðum.