Ýmislegt um tunnel!

Höfundur: Glódís

Reyndir gatarar hafa í fjöldamörg ár fylgst með og skoðað margar aðferðir og breytur við stækkun gata, svo sem efni lokka og aðferð stækkunar. Að stækka gat getur verið varanleg breyting og það er alltaf best að ganga út frá því að það verði raunin. Það er samt hægt að láta sauma saman tunnel ef mann langar ekki lengur að vera með þau, en það er kostnaðarsamt. 

Þessi tunnel eru frá Gorilla Glass og Glasswear Studios

Stækkunin sjálf

Öruggasta aðferðin er að byrja á að fara til gatara til að fá stækkun og stækka svo sjálfur með því að hafa fyrstu lokkana í þar til þeir eru rúmir og þú getur auðveldlega sett næstu stærð eða hálfu stærð í gatið án mikilla óþæginda. Það ætti að taka um 6-8 vikur í flestum tilfellum.

Forðast skal að stækka um meira 1-2 mm í einu til að halda eyrnasneplunum heilum og í góðu standi. Að þrýsta nýjum og stærri lokk í er ekki talið góð aðferð, og það á einnig við um að nota stærri sílíkon lokka til að stækka!

Úr hvaða efnum mega lokkarnir vera? 

Í nýstækkuðum götum er ekki mælt með að hafa lokka úr akrýl, sílíkoni eða náttúrulegum efnum svo sem horni, við eða beinum. Eftir að eyrun hafa jafnað sig er að sjálfsögðu hægt að nota lokka úr þessum efnum og fleirum til!

Best er að nota annað hvort innþrædd eða ‘’single flair’’ títaníum tunnel, eða gler plug. Ekki er mælt með útþræddum lokkum eða lokkum með beitta kanta í ný göt því þá eiga eyrun í meiri hættu á að rifna/rispast við stækkun. Það er ekki heldur mælt með að nota lóð eða aðra mjög þunga lokka til þess að stækka, þeir valda því að gatið stækkar ójafnt og vegna þrýstingsins sem myndast neðst í sneplinum getur hann þynnst.

Einnig er vert að taka fram að taperar sem notaðir eru til að stækka eru ekki ætlaðir sem lokkar og ætlast er til að þeir séu fjarlægðir úr eyrum og lokkar settir í staðinn. Að ganga með taper sem skart í nýstækkuðu gati getur auðveldlega skapað ertingu og óþarfa tog.

Umhirða

Best er að halda eyrunum hreinum og þurrum og má til dæmis nota saltvatnslausn til að þrífa og hárblásara á kaldri stillingu til að þurrka á eftir. Ekki allir gatarar telja þó að þessi göt þurfi sérstaka umhirðu þar sem ekki er um að ræða ný göt, best er að hlusta á ráðleggingar frá gatara sem þú treystir.

Þegar eyrað hefur jafnað sig alveg er gott að taka lokkana úr í sturtuferðum og þrífa þá lokkana og eyrun. Þá er einnig gott að nudda eyrnasneplana reglulega með t.d. jojoba olíu til að gefa húðinni raka og auka blóðflæðið til eyrnasnepilsins.

Algengustu vandamál

Að stækka gat of hratt getur valdið ofmyndun örvefs og þegar mikill örvefur er í gati verður teygjanleiki húðarinnar minni, blóðflæðið minna og líkurnar á að gatið minnki aftur síðar verða mun minni.

Sársauki, roði, glær vökvi og bólga geta bent til þess að gatið hafi verið stækkað of hratt (þá myndast ‘’blow out’’) eða að lokkurinn sé að valda ofnæmisviðbrögðum og/eða ertingu vegna efnis eða áferðar. Þá er mikilvægt að komast að því hvað af þessu er að valda óþægindunum og bregðast við því sem fyrst.

Oftast er best að minnka götin um 1-2 stærðir, setja lokk úr titanium eða gleri og hugsa um götin eins og ný göt. Í sumum tilfellum er best að fjarlægja lokkana alveg og leyfa eyrnasneplunum að jafna sig. Götin munu skreppa saman, en þegar eyrun hafa jafnað sig er öruggt að byrja að stækka aftur, en fara rólega í sakirnar!